Vá, þvílík uppástunga, förum og borðum á Stokkseyri! Rigning og rok á sunnudagskvöldi aftra ekki fólki með ævintýraþrá að keyra út fyrir bæinn.
Bílaplanið er fullt fyrir utan Fjöruborðið og þjónar á þönum og við bíðum nokkra stund eftir augnsambandi við þjónana og svo eftir borði.
1100g humarveisla er í uppsiglingu fyrir þrjá. Ferskt hvítvín hússins og mjúkt brauð með sætri hvítlaukssósu og sýrðum rjóma með estragoni kveikja í bragðlaukunum. Þó svo ég hafi oft smakkað þessar sósur eru þær alltaf skemmtilega óvenjulegar og bragðgóðar. Humarveislan er borin fram í stóru stálfati, humar, nýjar kartöflur, sítróna, krydd og smjör, mjög lystugt, salat og kúskús í litlum skálum.
Humarinn er frábær, frelsi til að borða með höndum og verða kámugur er ánægjan ein. Þegar ég er farin að umma upphátt og ósjálfrátt þá er ég sæl.
Espresso og milt Tiramisu ráku smiðshöggið á frábæra máltíð. Verðið er sanngjarnt miðað við gæði. 400gr humarveisla 5250,-kr, hvítvínsglas 950,-kr, Tiramisu 790,-kr og kaffi 400,-kr.
Umhverfið er heiðarlegt og hreint, uppsetningu málverka mætti kannski skoða betur þó að málverkin hennar Ingu Hlöðversdóttur eigi sérlega vel við staðinn. Ýmislegt smádót til skreytinga mætti stílisera til að ná fram hrárri sjávarstemmningu. Maturinn er það góður að hann yfirgnæfir allt svona pjatt.
Þjónarnir vöktu yfir gestunum á látlausan hátt og kvöddum við staðin södd og sæl.
**** af 5 mögulegum
www.fjorubordid.is