Sweet and sour

Enjoying food in good company and beautiful surroundings is often made out as a given thing when dining out.
I am exploring what makes the experience.
What I search for is the taste of fresh ingredients, aroma that gets the juces flowing and a plate for the eye.
The location and staff with a passion help create the experience.
Leaving with a smile and longing to visit again is the key.

After rain and shine, good and bad, sweet and sour I cant but invite you to follow my journey on dining out in Reykjavík and maby even venturing out of the city into the smaller towns in Iceland.

Bring on the adventure!
Saja



Að njóta matar í góðum félagsskap og fallegu umhverfi er oft sett fram sem sjálfsagður hlutur þegar farið er út að borða. Ég velti fyrir mér hvað það er sem gerir upplifunina góða og hversvegna ég fer stundum af veitingahúsum full vonbrigða. Það sem ég sækist eftir er bragð af fersku hráefni, ilmandi mat sem fær munnvatnið til að renna, framreitt á fallegan hátt. Kurteist og skilvirkt þjónustufólk og umvefjandi umhverfi sem sýnir ástríðu þess starfsfólks sem rekur og starfar á staðnum.
Að borga brosandi og hlakka til að koma aftur er góðs viti.
Eftir skin og skúri, vont og gott, súrt og sætt get ég ekki orða bundist og verð að leyfa ykkur að vera með!

Friday, July 8, 2011

Sushi Train

Síðbúinn kvöldmatur þá er sushi góður kostur.  OSushi í Lækjargötu á fimmtudagskvöldi um 20:30 er biðröð, bíðum við dágóða stund.  Þjónustustúlkurnar eru duglegar að raða nákvæmlega í öll sæti í dag, ekkert ónýtt pláss sem er alveg til fyrirmyndar.  Óvenju mikið úrval diska er á færibandinu og vel ég stökkar rækjur í tempura, grillaðar hrossalundir, meirar og fínar,  litlar makirúllur með gúrku og sesamfræjum, alltaf ferskar, tempuradeigsböggla með fyllingu sem ekki var vitað hvað var í en sesambragð var yfirgnæfandi, svona frekar daufur réttur. Uppáhaldið mitt eru makirúllur með rækju, kóríander og mangói sem að þessu sinni var alveg frábært því mangóið var vel þroskað, mjúkt og sætt.  Þjónustan var góð og þjónustustúlkurnar sérlega jákvæðar og brosmildar. Það var greinileg bót á þjónustunni því ráðin hefur verið auka manneskja sem virkilega var þörf á.  Heildarverð með bjór 2630,- kr.
Ánægjulegt og bragðgott kvöld.

*** af 5 mögulegum

www.osushi.is

Wednesday, July 6, 2011

Saffranhádegi

Stelpustefnumót á Saffran-Dalvegi í hádeginu.  Það er háannatími en allir eru tilbúinir að panta við kassann og gengur röðin hratt. Eðalsalat í sólinni, 1490,- kr, borgaði en saknaði bross eða augnsambands við afgreiðslukonuna.  Óreiða og myrkur í aðalborðsalnum veldur því að við veljum að sitja við háborð upp við vegg hjá innganginum.
Salatið kom fljótlega, sítrónumarineraður kjúklingur með hnetum og trönuberjum með gráðosta og dijon sósu.  Kjúklingurinn bragðast vel með sterku og fersku sítrónubragði, kom skemmtilega á óvart, var ekki viss um að gráðostasósan passaði nógu vel með sítrónukjúklingnum.  Það var góður skammtur af kjúklingi á icebergbeði sem var full vel skorið í ræmur, mætti rífa það eða bæta í öðrum salattegundum til að taka af "fast food" lookið, einnig mætti bæta við fleiri hnetum og berjum.
Var ánægð með bragðið af matnum en vantaði natni við framreiðsluna og finnst verðið vera í hámarki.
 

**1/2 af 5 mögulegum

www.saffran.is

Monday, July 4, 2011

Rigningarkvöld við Fjöruborðið

Vá, þvílík uppástunga, förum og borðum á Stokkseyri!  Rigning og rok á sunnudagskvöldi aftra ekki fólki með ævintýraþrá að keyra út fyrir bæinn.
Bílaplanið er fullt fyrir utan Fjöruborðið og þjónar á þönum og við bíðum nokkra stund eftir augnsambandi við þjónana og svo eftir borði.
1100g humarveisla er í uppsiglingu fyrir þrjá.  Ferskt hvítvín hússins og mjúkt brauð með sætri hvítlaukssósu og sýrðum rjóma með estragoni kveikja í bragðlaukunum.  Þó svo ég hafi oft smakkað þessar sósur eru þær alltaf skemmtilega óvenjulegar og bragðgóðar.  Humarveislan er borin fram í stóru stálfati, humar, nýjar kartöflur, sítróna, krydd og smjör, mjög lystugt, salat og kúskús í litlum skálum.
Humarinn er frábær, frelsi til að borða með höndum og verða kámugur er ánægjan ein. Þegar ég er farin að umma upphátt og ósjálfrátt þá er ég sæl.
Espresso og milt Tiramisu ráku smiðshöggið á frábæra máltíð. Verðið er sanngjarnt miðað við gæði. 400gr humarveisla 5250,-kr, hvítvínsglas 950,-kr, Tiramisu 790,-kr og kaffi 400,-kr.
Umhverfið er heiðarlegt og hreint, uppsetningu málverka mætti kannski skoða betur þó að málverkin hennar Ingu Hlöðversdóttur eigi sérlega vel við staðinn. Ýmislegt smádót til skreytinga mætti stílisera til að ná fram hrárri sjávarstemmningu.  Maturinn er það góður að hann yfirgnæfir allt svona pjatt.
Þjónarnir vöktu yfir gestunum á látlausan hátt og kvöddum við staðin södd og sæl.

**** af 5 mögulegum

www.fjorubordid.is

Sunday, July 3, 2011

Portið - örbylgja?

Skrapp í síðbúið brunch á Portið eftir smá útsölurölt í Kringlunni á laugardag.  Amerískt-brunch með latte, kaffið kom fyrst meinlaust á 450,- svo diskur með mjög vel röðuðum pönnukökum, eggjahræru og tveimur beikonsneiðum ofaná. Það sem ég sá strax að maturinn var ekki sérlega heitur og engin ilmur af nýsteiktu beikoni og lummum.  Þegar ég smakkaði matinn varð mér ljóst að þetta hlaut að vera matur hitaður í örbylgju og örugglega ekki eldaður samdægurs, beikonið var alveg stíft og dökkt, pönnukökurnar og eggjahræran voru jafn þéttar og bragðlausar.  Kartöflubátarnir hjá mér og borðfélaga mínum voru svo harðir að við skildum þá eftir, einnig virtist ristaðabrauðið hjá félaga mínum vera gamalt og var ískalt. Þetta var dapurlegt því fyrsti réttur dagsins ætti jú að vera ferskur.  Ég spurði þjóninn sem var mjög lipur og ljúfur hvort ekki störfuðu kokkar í Portinu, hann sagði jú...  Fyrir 1890,- hafði ég  búist við því að hægt  væri að steikja beikon og lummur á pönnu á nokkrum mínútum fyrir hvaða kokk sem er án fyrirhafnar.  Húsnæðið er bjart og hreint en virðist vanta allann metnað í matargerðina.

Mun ekki langa í brunch þarna aftur í bráð * af 5 mögulegum

http://www.portid.is

KEX

Á föstudagskvöld fórum við nokkrar saman út að borða á Kex.  Það var spennandi óvissa að fara upp stigagang sem á engan hátt gaf tilkynna hversu skemmtilegur heimur beið okkar, Evrópa nokkur ár aftur í tímann með forvitnilegum, framandi og kunnuglegum hlutum í bland hvert sem augað leit.  Matseðlar voru bæði á blaði og krítartöflu sem olli nokkrum vangaveltum en fengum góðar útskýringar.  Ég var svöng og valdi mér lamb með smælki og rabbabarasultu og rauðvín hússins.  Maturinn kom fljótlega, borinn fram á gömlum myndskreyttum diski með gullrönd og rauðvínið bragðgott.
Maturinn ilmaði og leit vel út  Þegar ég bragðaði á lambinu með brúnni sósu og rabbabarasultu fór ég aftur í tímann til ömmu og afa, mmm...  Umhverfið og maturinn mynduðu sterka upplifun og ég naut hvers bita.  Skammturinn fannst mér heldur lítill og ég enn svöng og því ekki spurning um að fá sér eftirrétt, eplabaka á hvolfi.  Mjög skemmtileg og látlaus baka, hálft epli í bragðgóðu deigi. Mér leið vel.  Verðið var sanngjarnt og skemmtilegt að upplifa vinveitt verðlag, þ.e. ekki verðlagt upp í topp.
1950,- fyrir lambið, hefði viljað nokkra munnbita í viðbót.
650,- eplabaka á hvolfi
800,- rauðvínsglas hússins
Starfsfólk var persónulegt og til fyrirmyndar í kurteisi.
Umhverfið mjög afslappað og fallegt, svona eins og vin í eyðimörk.

Fer pottþétt aftur og smakka  nýjan rétt! *** af  5 mögulegum

http://www.kexhostel.is